Hvort sem þig langar að setja upp fyrsta barinn heima hjá þér eða bæta þig í að gera kokteila fyrir matarboðið þá er lykilatriði að hafa rétt tæki og tól. Það þarf ekki að kosta hvítuna úr augunum og það eru miklar líkur á að þú eigir nú þegar tól í eldhússkápnum sem koma að góðum notum við kokteilgerð.
Tæki sem þarf að hafa við hendina fyrir gott kokteilboð
Hristari (shaker): Blandar saman spíranum, djúsum, sýrópum og öllum tilheyrandi hráefnum. Hráefni og klaki eru sett í hristara og hann hristur fast og vel. Þetta er gert bæði til að blanda saman en líka til að kæla og vatnsþynna drykkinn. Það eru til margar tegundir af hristurum en við mælum með járn í járn hristara þar sem það er stór partur og lítill sem smella saman, kallað „Boston shaker“. Auðvitað er hægt að nota alls konar tegundir af hristurum. Ef ekki er til hristari er tilvalið að nýta stóra krukku til að hrista dýrindis kokteila.
Mæliglas (jigger): Mælir vökva í kokteilinn til að passa að drykkurinn smakkist rétt og bragðist alltaf eins. Það er mikilvægt að mæla svo að hann sé ekki of súr eða sætur. Jigger er yfirleitt 3cl sem flokkast sem einfaldur hér á Íslandi. Til að passa að mælingar séu réttar er auðvitað hægt að nýta mæliglas eða skotglas sem er yfirleitt 3cl eða einfaldur.
Tól sem er þægilegt að hafa en ekki nauðsynlegt
Sítruspressa eða mexikóskur olnbogi er notaður til að kreista ferskan safa hvort sem það er límóna, greipaldin eða sítróna. Við mælum með að nota ferskan safa í kokteilana til að ná fram sem allra bestu gæðum.
Hræriglas (mixing glas): Gott að nota til að hræra drykki með meira áfengi eins og Martini eða Negroni. Þegar drykkur er hrærður brotnar klakinn ekki jafn mikið en drykkurinn verður svell kaldur. Það er líka hægt að nota annan partinn af hristaranum eða jafnvel krukku til að hræra drykkinn ef hræriglas er ekki við höndina.
Sigti (strainer): Notaður þegar þú notar Boston shaker eða hræriglas. Það eru 2 tegundir af strainerum sem er gott að nota: „Hawthorne strainer“ er grófur og fer ofaná hristarann og skilur að klaka og drykk. „Fine strainer“ er fínt sigti sem síar frá litla klakamola og jurtaflygsur sem eiga ekki að fara í drykkinn eins og t.d. Basil Gimlet. Það er líka hægt að nota efri partinn eða krukkulokið til að sía frá klaka en það verður alltaf örlítið subbulegt.
Barskeið (bar spoon): Löng skeið sem er tilvalin til að hræra í hræriglasi og er yfirleitt með snúning á skaftinu sem auðveldar að hræra. Hún er einnig notuð t.d. til að leggja ólivu í martini eða marischino ber í Old Fashioned.
Hnífur / skrælari (garnish knife / pealer): Lítill, handhægur hnífur eða skrælari sem er mjög þægilegt að hafa við hendina.
Kremjari (muddler): Notaður til að kreista límónur og myntu fyrir Mojito eða blautan sykurmola í Old Fashioned. Einnig er hægt að nota sleif til að kremja.
Við mælum með bartólum og glösum frá GS-import www.gsimport.is
Vonandi ganga kokteilævintýri ykkar vel
Hlynur Maple
